Vatnaöldur 870

Birta á :

.

Eldgos

.

Í þann mund sem fyrstu landnámsmennirnir settust hér að , þá var nýlokið eða um það bil að ljúka  stórgosi að fjallabaki, nánar tiltekið þar sem nú heita Vatnaöldur.  Opnaðist þar amk. 10 km löng sprunga sem spítti útúr sér 3,3 km3 af gjósku auk lítilræðis af hrauni. Í þessu gosi myndaðist hið svokallaða “landnámslag” sem er tvílitt gjóskulag ættað úr þessu gosi og gosi sem varð samtímis í Torfajökulskerfinu.  Það virðist reyndar alloft hafa átt sér stað þ.e. að stórgosi á Veiðivatnasvæðinu fylgi umbrot í Torfajökulskerfinu.   Öskufall varð töluvert um allt land nema á Vestfjörðum og hefur áreiðanlega víða valdið skemmdum á grónu landi.

Ástæða þess að gjóskufall varð mjög mikið en hraunrennsli fremur lítið í gosinu er sú að í jarðlögum á þessu svæði hefur verið og er enn mikið grunnvatn og kvikan tættist viðað komast í snertingu við það.  þarna eru í dag fjölmörg stöðuvötn.  Ekki er ljóst nákvæmlega hvernig landslagi þarna var háttað fyrir þetta gos en ljóst að það  breytti mjög landslagi á þessum slóðum líkt og gerðist svo rúmum 600 árum síðar þegar aftur varð mikið sprungugos á Veiðivatnasvæðinu.

Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær þetta  gos hófst en það hefur verið mjög nálægt árinu 870.  Það gæti hafa verið fyrsta eldgosið sem landnámsmenn urðu vitni að hafi því ekki verið lokið þegar þeir fyrstu komu til landsins.

Landnámslagið hefur reynst sérlega vel hvað varðar tímasetningu annarra jarðfræðilegra atburða og hefur einnig komið sér vel fyrir fornleifafræðinga.  Ástæðan þess er að það er fremur auðgreinanlegt í jarðlagastaflanum og gjóskan barst eins og áður segir mjög víða.

Vatnaöldugosið tilheyrir Bárðarbungueldstöðinni í Vatnajökli, þó hún sé alllangt frá.  (sjá umfjöllun um Bárðarbungu).

Scroll to Top