Katla – Eldgjá 934

Birta á :

Það er ljóst að landið hefur ekki tekið sérlega vel á móti landnámsmönnum, ekki líða nema um 50 ár frá stórgosi í Vatnaöldum lýkur þar til mesta gos frá landnámi hefst, gos í Kötlu og Eldgjá.  Í þessu gosi gekk mikiðEldgjá á svo vægt sé til orða tekið.  Stór jökulhlaup verða og gossprungan lengist í báðar áttir á nokkrum vikum eða mánuðum.   Teygir hún sig brátt undir Kötluöskjuna og kemur þar upp ógnvænlegt magn af gjósku í hamfaragosi.  Sprungan lengist svo í norðurátt og myndar Eldgjá.  Nyrsti hluti Eldgjár er um 60 km. frá jöklinum sem segir sína sögu um hamfarirnar, jafnvel þó ekki hafi gosið á henni allri í einu.

Gríðarlegt hraun rann frá Eldgjá og náði hraunið að renna allt til sjávar í Álftaveri.  Nýlegar rannsóknir benda til þess að hraunið frá Eldgjá sé um 18 km. að rúmmáli og um 800 ferkílómetrar sem slær Skaftáreldum við.   Hraun frá þeim rann reyndar yfir hluta Eldgjárhrauna.   Þá er talið að gjóskan frá gosinu sé um 5-7 rúmkílómetrar en slíkt magn eitt og sér án hraunsins dugar til að flokka þetta sem stórgos.

Allt bendir til þess að þetta gos hafi haft neikvæð áhrif á veðurfar um allan heim.  Um svipað leiti varð uppskerubrestur vegna kulda í Evrópu og vötn frusu þar sem nú er Írak en slíkt er einsdæmi á síðari tímum.  Það er ljóst að kæmi upp gos á Íslandi af þessari stærðargráðu í dag þá hefði það mikil áhrif – og það langt út fyrir landsteinana.  Flug frá landinu mundi sennilega stöðvast meira og minna í dágóðan tíma.  Talið er að þessar hamfarir hafi staðið í nokkur ár.

Það var Þorvaldur Thoroddsen sá mikli fræðimaður sem fyrst rannsakaði þetta mikla eldgos og færði rök fyrir því að hraunið í Álftaveri væri raunverulega komið úr Eldgjá.  Í bók hans “Jarðskjálftar á Íslandi” sem upphaflega kom út árið 1899 segir svo um þetta gos:

Þá er enn fremur í Landnámu getið um jarðelda í Álftaveri og á Mýrdalssandi.  Molda- Gnúpur nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver alt; þar var þá vatn mikið og álftaveiðar, seldi hann mörgum af landnámi sínu og gjörðist þar fjölbygt áðu jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gjörðu þar tjaldbúðir er heitir á Tjaldavelli.  Þess er og getið, að Hrafn hafnarlykill hafi numið land milli Hólmsár og Eyjarár og bjó í Dynskógum; hann vissi fyrir eldsuppkomu og færði bú sitt í Lágey.

“Þeir sem hafa ritað um eldgos á Íslandi hafa allir haldið að hér væri átt við Kötluhlaup, en það er er auðséð á orðum Landnámu að svo er eigi.  Hér er beinlínis sagt að “jarðeldur”, glóandi hraun, hafi runnið ofan í Álftaver; hraun þetta er líka enn til og sýnir sig;  Jökulhlaup mundi enginn hafa kallað “jarðeld” en hraun hafa aldrei runnið úr Kötlu.  Hefði Katla gosið og “hlaup” gengið yfir Mýrdalssand, þá hefði Gnúpur eigi getað flutt sig vestur til Höfðabrekku, en farið austur, en það gat hann einmitt ekki fyrir jarðeldunum, sem þar runnu.  Hrafn hafnarlykill flutti vegna hinna sömu jarðelda í Lágey á Mýrdalssandi og hefði þar verið óvistlegt, ef sandurinn hefði verið undir hlaupi.  Ég hef annarsstaðar fært rök fyrir því , að jarðeldur þessi hafi komið úr Eldgjá á Skaftártungu- afrétti og runnið ofan í Álftaver og Landbrot; hraun þetta er afar mikið og breytti mjög landi og vötnum þar eystra.  Í Landnámu er þess getið lauslega, að jökulhlaup hafi komið niður Hverfisfljót, sem hét þá Almannafljót; þar stendur:  “Áðr Almannafljót leypi var þat kallat Raptalækr”  Lengri er ekki frásögnin um þetta hlaup og er þess hvergi annarsstaðar getið.”

Þorvaldur vissi hinsvegar eðlilega ekki hve gríðarstórt þetta gos var enda heimildir um það fremur bágbornar, allavega miðað við stærðargráðu þessara hamfara.  það er í raun ekki fyrr en með rannsóknum allra síðustu áratugi að vísindamenn hafa áttað sig á umfangi þessa goss.

Megineldstöðin Katla er greinilega til alls vís þó svona hamfarir séu sem betur fer sjaldgæfar af hennar völdum.

Scroll to Top