Grímsvötn

Birta á :

YfirlitGrímsvötn

Grímsvötn eru öflug og mikilvirk megineldstöð staðsett við vestanverða hásléttu Vatnajökuls.  Hefur eldstöðin hlaðist upp á síðustu 1-200.000 árum.  Kerfið er rúmlega 100 km. langt í stefnuna na-sv og allt að 20 km. breitt.  Önnur megineldstöð er í kerfinu suðvestur af Grímsvötnum, það er Þórðarhyrna.  Sá hluti kerfisins er ekki mjög virkur.

Grímsvötn eru langvirkasta eldstöð landsins.  Með gjóskulagarannsóknum hefur tekist að staðfesta um  60 eldgos í kerfinu á sögulegum tíma sem er margalt meira en þær sem koma næstar í röðinni, t.d. Katla með um 20 gos.   Staðsetning Grímsvatna órafjarri mannabyggðum og langt inni á ísbreiðu Vatnajökuls gerði það að verkum að lengi vel vissu menn lítið sem ekkert um eldstöðina  og lýsingar voru gjarnan þjóðsagnakenndar.  Nú ber hinsvegar svo við  að Grímsvötn eru meðal best könnuðu eldstöðva á landinu.

Askjan í megineldstöðinni Grímsvötnum er um 45 km2 og telst hún vera þrískipt. Virðist sem tvær minni falli inn í eina aðalöskju.  Við suðurbarm meginöskjunnar rís Grímsfjall í 1722 m hátt.  Askjan sjálf er dýpst um 650 metrar.

Í miðöskjunni er stöðuvatn sem verður að teljast með undarlegri jarðfræðimyndunum hér á landi og þótt víðar væri leitað.  Mikill jarðhiti bræðir stöðugt íshelluna ofan á vatninu  og stækkar vatnið og hækkar vatnsyfirborðið sem því nemur.  Þegar ákveðnu hámarki er náð – yfirleitt á nokkurra ára millibili- þá brýst vatnið fram í miklum flóðum sem kölluð eru Skeiðarárhlaup.    Lækkar þá vatnsyfirborðið um allt að 100 metra og íshellan sem er yfir vatninu hefur þá sigið sem því nemur og sprungið.   Ekki nóg með það , heldur veldur þessi skyndilega þrýstingslækkun oftar en ekki eldgosum í öskjunni oftast við suðurenda stöðuvatnsins.  Má fullyrða að hvergi í veröldinni er að finna neitt þessu líkt.

Það er kvikuhólf undir Grímsvötnum sem orsakar jarðhitann.  Virkni  hólfsins er þó misjöfn og ef langt er á milli eldgosa eða kvikuinnskota þá hægir á bráðnuninni og lengra er á milli jökulhlaupanna.  Einnig hefur veðurfar og þá jökulþykktin áhrif.  Ef jökullinn þynnist vegna hlýs veðurfars þá minnka að sama skapi hlaupin en þau verða tíðari.  Virkni í Grímsvötnum er nokkuð sveiflukennd og virðast líða um 100-160 ár á milli aðallota í virkninni.  Um þessar mundir virðist sem uppsveifla sé hafin með tíðari gosum.

Eins og margar megineldstöðvar þá á eldstöðin í Grímsvötnum það til að senda kvikuinnskot alllangt frá sér þannig að gos kemur upp víðsfjarri eldstöðinni.  Þetta gerist reyndar mun sjaldnar í Grímsvötnum heldur en t.d. nágrannanum Bárðarbungu.  Skaftáreldar 1783-4 eru þó dæmi um slíkt, Grímsvatnaeldstöðin á nefnilega “heiðurinn” af þeim.  Þetta stórgos sem olli svo miklum hörmungum í landinu er eina tilvikið á sögulegum tíma um gos í Grímsvatnakerfinu utan jökuls en merki eru um gos á svipuðum slóðum fyrir um 4000 árum.  Þau voru þó mun minni en Skaftáreldar.

Skaftáreldar

Gossaga á nútíma

Atburðarrásin sem á undan er líst hefur líkast til verið í gangi nokkuð lítið breytt síðustu 10-12.000 ár  Ekki verða nein stórgos rakin til Grímsvatna á þessum tíma fyrir utan Skaftárelda en vafalaust hafa oft orðið nokkuð öflug gos á borð við gosin 1938 og 1996 sem voru þau stærstu á 20. öldinni og voru völd að miklum flóðum á Skeiðarársandi.  Grímsvatnakerfið virðist einnig spila með “nágrannaeldstöðvum”, t.d. kom öflugur jarðskjálfti í Bárðarbungu gosinu 1996 af stað.  Það gos kom upp norðaustantil í kerfinu, nærri Bárðarbungu en gosefnin tilheyra Grímsvötnum.  Þá á eftir að rannsaka betur samspil við Kverkfjöll í norðri en gosefnin úr þeim eru svo lík efnum frá Grímsvötnum að etv.  mætti flokka þessar eldstöðvar sem sama kerfið.

Á 20. öld urðu amk. 9 eldgos í Grímsvötnum en enn oftar brast klakastíflan með tilheyrandi flóðum án þess að eldgosa yrði vart.  Ekkert gos varð á tímabilinu 1938-1983 en síðan þá hafa orðið 5 gos með gosinu 2004,  Þrátt fyrir þessi tíðu umbrot í Grímsvatnakerfinu þá er ólíklegt að það eigi eftir að hrella Íslendinga með stórgosi í náinni framtíð.  Stóru sprungugosin á borð við Skaftárelda eru mjög sjaldgæf og gosin í jöklinum verða sjaldan öflug.  Þau geta samt sem áður valdið tjóni á mannvirkjum, einkum brúm og vegum, vegna flóðanna og etv. getur öskufall valdið einhverjum óþægindum en að öðru leyti er ekki hægt að flokka Grímsvötn með hættulegri eldstöðvum landsins.

UPPFÆRT 23.MAÍ 2011

Mjög öflugt eldgos sem hófst 21. Maí 2011 er ekki í takt við það sem gert var ráð fyrir hér að ofan og sýnir fyrst og fremst að eldfjöll á Íslandi geta verið óútreiknanleg.  Gosið er miklu stærra en menn eiga að venjast úr Grímsvötnum.  Vissulega er ljóst að stórgos hafa áður orðið í eldstöðinni, það sanna öskjurnar þrjár en öskjumyndun er gjarnan tengd stórgosum.

Lakagígar

Færslur á eldgos.is sem tengjast Grímsvötnum:

Lítið hlaup úr Grímsvötnum nóvember 2012

Gosinu að ljúka maí 2011

STÓRGOS Í GRÍMSVÖTNUM – ÖSKUFALL MJÖG VÍÐA maí 2011

ELDGOS HAFIÐ Í GRÍMSVÖTNUM maí 2011

Jarðhræringar við Grímsvötn jan. 2011

Hlaup hafið úr Grímsvötnum okt. 2010

Vatnajökull í stuði okt. 2010

Scroll to Top