KVIKUHLAUP Í SVARTSENGI – LÍKLEGT AÐ ELDGOS HEFJIST

Birta á :
Skjáskot af vefsíðunni Vafri.is sem sýnir skjálftana í hrinunni fyrstu 90 mínúturnar

ÁKÖF SKJÁLFTAHRINA HÓFST Í SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI UM KL. HÁLF EITT Í NÓTT.  ÞEGAR ÞETTA ER RITAÐ KL 01:50 ER EKKI HAFIÐ ELDGOS OG ÞAÐ VIRÐIST NOKKUÐ DJÚPT Á JARÐSKJÁLFTUNUM  EN ELDGOS VERÐUR ENGU AÐ SÍÐUR AÐ TELJAST LÍKLEGT Á NÆSTU KLUKKUSTUNDUM.  HRINAN ER ÁKÖFUST UM MIÐBIK GÍGARAÐARINNAR, SUÐUR OG SUÐAUSTUR AF SÝLINGARFELLI.  ÞAR HAFA FLEST ELDGOSANNA EINMITT HAFIST.

Enn sem  komið er virðist kvikan ekki hreyfast mikið eftir sprungunni, hvorki til norðurs eða suðurs en það gæti breyst.   Hægt er að fylgjast með framvíndu hrinunnar live hér og vefmyndavélar eru aðgengilegar á þessum hlekk

UPPFÆRT 17/7 KL. 00:50

Eldgosið hófst um kl 4 sl. nótt og reyndist minna en miðlungsgos miðað við fyrri gos á þessum slóðum.  Það kom upp í grennd við Stóra- Skógfell og urðu gossprungurnar tvær, önnur rúmir 2 km á lengd þegar mestur kraftur var í gosinu og hin um 500 metra löng.  Gosið kom upp á afar heppilegum stað, engir innviðir í neinni hættu og hraunið rann að mestu á einskinnsmannslandi í átt að Fagradalsfjalli austur af gossprungunum.

Reikna má með að gosið lifi í einhverja daga.  Jarðfræðingar telja amk. sumir að þetta gæti verið síðasta gosið á Sundhnúkagígaröðinni í þessum eldum en það er þo engan veginn öruggt.  Meðan landris mælist, þá er alltaf hætta á að atburðir endurtaki sig.  

 

 

Eldgosið var lítið en atburðurinn stór

Birta á :
GPS graf á vef Veðurstofunnar frá stöðinni við Svartsengi sýnir svo ekki sé um vilst að landris er hafið enn á ný. Neðsta myndin sýnir landris en hinar hliðarfærslur.

Eldgosið sem hófst 1.Apríl síðastliðinn stóð aðeins yfir í örfáar klukkustundir og var í raun bara “leki” úr stóru kvikuinnskoti sem myndaði allt að 20 kílómetra langan kvikugang frá Grindavík og langleiðina að Keili.  Þetta var langlengsti kvikugangurinn sem myndast hefur síðan þessi umbrot öll hófust.

Það kom vísindamönnum á óvart að kvika næði ekki til yfirborðs á hefðbundnum slóðum því kvikumagnið sem fór á hreyfingu var það mesta síðan 10. Nóvember 2023 þegar stóri kvikugangurinn myndaðist undir Grindavík.  Hversvegna þetta gerðist með þessum hætti er ekki ljóst.  Þá var meira rúm fyrir kviku neðanjarðar í sprungusveimnum en reiknað hafði verið með.

Veruleg jarðskjálftavirkni hefur fylgt þessum umbrotum og skýrist af myndun kvikugangsins.  Bergið í kringum ganginn aflagast og spenna byggist upp og losnar í skjálftum jafnvel allfjarri kvikuganginum eins og stórir skjálftar við Reykjanestá sýna.  Þetta hafa fræðingar kallað hinu frekar óþjála orði “gikkskjálftar”.

Landris er greinilega hafið á ný og virðist nokkuð hratt.  Það er því fátt sem bendir til þess þessum umbrotum sé lokið því miður.  Það má því búast við enn einu kvikuhlaupi eða eldgosi síðsumars, ca Júlí – Ágúst.  Þar sem þessi atburður sem hófst 1.Apríl hagar sér öðruvísi en undanfarnir atburðir sem flestir enduðu með eldgosum á miðbik Sundhnúkagígaraðarinnar, þá er erfitt að segja til um hvað kvikan gerir næst.  Mögulega á hún orðið erfiðara með að komast upp við Sundhnúk og gæti leitað annað, t.d. í Eldvörp.  Það er allavega enn mikil óvissa um lok þessara Svartsengiselda.

ELDGOS HAFIÐ – GOSSPRUNGAN TEYGIR SIG INN FYRIR VARNARGARÐA VIÐ GRINDAVÍK

Birta á :
  • ÖFLUG JARÐSKJÁLFTAHRINA HÓFST Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI UM KL. 6 30 Í MORGUN ER KVIKUHLAUP HÓFST. 
  • ELDGÓS HÓFST Á 10. TÍMANUM EN ER ENN SEM KOMIÐ ER LÍTIÐ EN STAÐSETNINGIN HÆTTULEG.
  • MIKIL KVIKA Á FERÐINNI SEM LEITAR NORÐUR EFTIR SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI OG GÆTI BROTIST ÞAR UPP.
Skjáskot af vefmyndavél Morgunblaðsins 

Þrátt fyrir að eldgos sé hafið þá er mikil óvissa um framhaldið þar sem meiri kvika er á ferðinni en verið hefur í aðdraganda undanfarinna eldgosa.  Miðað við jarðskjálftavirkni virðist sem kvikugangurinn sé að teygja sig norðaustur og er kominn þegar þetta er skrifað aðeins fáeina kílómetra frá Reykjanesbrautinni.  Ef eldgos verður á þeim slóðum er brautin í hættu.  

Þetta eldgos lét bíða óvenjulengi eftir sér, aldrei hefur verið meira kvikumagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi og hefur verið búist við gosi í nokkrar vikur.  Það er þó greinilega smámsaman að hægja á rennsli í þetta kvikuhólf og verður að telja líklegt að þetta sé síðasta gosið í þessari hrinu. Líklegt, en þarf þó ekki endilega að vera.

Gossprungan nær lítillega inn fyrir varnargarða við Grindavík en þar er virknin þó mjög lítil enn sem komið er.  Sprungan er á sömu línu og í gosinu í janúar í fyrra þegar einnig gaus innan varnargarðanna og þrjú hús fóru undir hraun.   Hún teygir sig þó ekki eins langt að bænum og virðist sem stendur ekki stórkostleg hætta á ferðum en meðan gýs þá getur þetta breyst án fyrirvara.  Mesti krafturinn er í gosinu norðan varnargarðanna þar sem þeir hlifa bænum og stafa ekki hætta frá þeim hluta gossprungunnar að óbreyttu.

Snörp jarðskjálftahrina í Bárðarbungu – Líklega kvikuinnskot

Birta á :
Skjálftahrinan í morgun sýnd á vef Veðurstofu Íslands.

Snörp og óvenjuleg jarðskjálftahrina varð í norðvestanverðri Bárðarbunguöskjunni milli kl 6 og 9 í morgun.  Virknin var mjög þétt og minnti á undanfara Holuhraunsgossins árið 2014.  Skjálftarnir voru flestir á um 4-8 km dýpi.  Það bendir flest til þess að um kvikuhreyfingar í kvikuhólfi undir eldfjallinu hafi verið að ræða. Mögulega kvikuskot útúr hólfinu.  Virknin stöðvaðist snögglega um kl. 9.  Stærstu skjálftarnir voru um M 4,9 og allmargir yfir M 3.  

Eldstöðin hefur verið að safna í sig kviku allt frá Holuhraunsgosinu, það er vitað en þó er erfitt að áætla hver mikið magn af kviku er að ræða.  Landris hefur mælst i nágrenni Bárðarbungu en þar sem eldstöðin er hulin jökli þá er ekki hlaupið að þvi að mæla hæðarbreytingar líkt og gert er á Reykjanesskaganum.  

Af og til hafa orðið nokkuð stórir stakir skjálftar í Bárðarbungu frá goslokum sem taldir eru tengjast kvikusöfnun.  Þeim hefur hinsvegar ekki fylgt nein eftirvirkni líkt og gerðist í morgun.  

Líta verður á þennan atburð sem merki um að þrýstingur undir eldstöðinni sé orðinn mjög mikill og að það styttist í eldgos.

HVERNIG ELDGOS ER LÍKLEGAST Í BÁRÐARBUNGU?

Bárðarbunga er nokkuð sérstök eldstöð að því leiti að langoftast leitar kvikan út í sprungusveim eldstöðvarinnar í stað þess koma upp nær miðju kerfisins.  Gos í Dyngjujökli norðaustur af Bárðarbungu hafa verið nokkuð tíð á köflum á sögulegum tíma, einkum á 13.-14. öld og svo aftur á þeirri 18. en menn sjaldnast orðið varir við þau enda víðsfjarri allri byggð.  Heimildir eru helstar um hlaup í Jökulsá á Fjöllum sem væntanlega tengjast þessum gosum.  Gjóskulagarannsóknir hafa einnig sýnt fram á tilurð þeirra.  

Af og til hafa hinsvegar orðið mjög stór gos Bárðarbungukerfinu.  Stærstu gosin frá landnámi eru Vatnaöldugosið um 870 og Veiðivatnagosið um 1480.  Þau eiga það sameiginlegt að kvikan hefur hlaupið alllangt til suðvesturs frá Bárðarbungu áður en hún hefur brotist upp á yfirborðið.  Þetta er tvímælalaust hættulegasta sviðsmyndin vegna innviða á þessu svæði t.d. fjölmargar virkjanir, en þó verður að telja líklegt að Holuhraunsgosið árið 2014 minnki verulega líkurnar á slíkum atburði í bráð enda virðist kvikan eiga greiðari leið til norðausturs eftir þeim sprungusveim. Á jökullausa hluta Dyngjuhálsins  (t.d. Holuhraun) gera stór eldgos engan skaða.

Það er fylgst vel með Bárðarbungu og full ástæða til þess að gera það enda líklega öflugasta eldstöð landsins.  

Eldgosið að fjara út – Landris hafið á ný

Birta á :
Gögn frá Veðurstofu Íslands sem sýna GPS færslur á mælistöðinni í Skipastígshrauni.

Gosið sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni þann 20. nóvember er í andaslitrunum að því er virðist.  Eftir nokkuð kröftuga byrjun datt virknin niður eftir nokkra daga en hélst svo síðustu vikuna nær óbreytt þar til í nótt.  Nú er ekki að sjá að hraun renni lengur frá gígnum, þeim eina sem hefur verið virkur síðustu vikuna.

Veðurstofa Íslands hefur tilkynnt að nýjustu aflögunargögn bendi til þess að landris sé hafið á ný.  Ekki er tekið fram hversu hratt það er en það ætti að skýrast fljótlega eftir að gosinu lýkur sem flest bendir til þess að sé á allra næstu dögum.  Ef eitthvað hefur dregið úr innflæði í grynnra kvikuhólfið þá er það sennilega mjög lítið.  Það má því reikna með nýjum viðburði innan þriggja mánaða, jafnvel fyrr.  Allavega er ljóst að þessum atburðum er hvergi nærri lokið.

Meðfylgjandi mynd sýnir GPS grafið fyrir Skipastígshraun sem staðsett er rétt vestan við miðju kvikuhólfsins.  Á neðstu myndinni sést vel að landris er þegar hafið.  Það er einnig athyglisvert að land seig ekki jafn mikið og í fyrri gosum sem gæti þýtt að styttra er í næsta viðburð en ella, því land þarf ekki að rísa eins mikið til að ná sömu hæð á ný og fyrir þetta gos.  Það fer þó allt eftir hraða landrissins á næstu vikum.

Það hefur verið nokkur umræða um að það sé farið að sjá fyrir endann á þessari goshrinu.  Innstreymi kviku úr neðra kvikuhólfinu í það efra hefur eitthvað hægt á sér en alls ekki mikið, hefur raunar verið því sem næst stöðugt frá því í maí.  Jarðfræðingar hafa bent á að nú virðist álíka mikið magn af kviku hafa náð yfirborði og í upphafi síðustu goshrinu fyrir um 1200 árum.  Sú hrina varð reyndar í Krýsuvíkurkerfinu.  Síðar á því eldgosaskeiði varð goshrina í Eldvörpum og vestast á Reykjanesskaganum sem náði út fyrir ströndina.  Sú hrina stóð yfir í um 30 ár og vantar líklega enn talsvert uppá að kvikumagni þeirrar hrinu sé náð núna.  Að mínu mati á þessi hrina meira skilt með þeirri hrinu en þeirri sem varð í Krýsuvík á 9. öld.  

Þá er einnig óvissuþáttur fólginn í hve auðvelt kvikan á með að komast úr neðra kvikuhólfinu (sem er gríðarlega stórt) í það efra og þaðan til yfirborðs. Í fyrri hrinum síðustu 3000 árin hefur kvikan staldrað mikið lengur við í efri kvikuhólfum áður en hún nær yfirborði.  Þetta gæti skýrt hve tíð gosin eru og hve mikið magn kviku er að ná yfirborði á stuttum tíma.   

Þetta gæti þýtt tvennt:  Annarsvegar að hrinan ljúki sér af mikið fyrr en aðrar hrinur sem staðið hafa yfir í áratugi og skili ekki mikið meira magni af kviku til yfirborðs en orðið er.   –  Hinsvegar að vegna þess hve auðvelt kvikan á með að ná yfirborði þá muni í heildina koma talsvert eða miklu meira magn kviku til yfirborðs en í sambærilegum hrinum síðustu árþúsundin.  Þetta gæti þýtt að enn séu mörg ár eftir af þessari atburðarrás en virknin gæti hlaupið á milli kerfa og þá líklegast út í Eldvörp eða út á Reykjanestá.  

Scroll to Top